GUÐSPEKISAMTÖKIN Í REYKJAVÍK

Guðspekisamtökin eru hluti af alþjóðlegri hreyfingu, The Theosophical Fellowship, með höfuðstöðvar í Daylesford í Ástralíu. Hreyfingin er rekin án hagnaðar og höfðar til fólks sem vill lifa lífi byggðu á réttum mannlegum samskiptum og guðdómlegri visku, guðspeki. Guðspeki hefur verið skilgreind sem dulspeki trúarbragða allra tíma og innsti sannleikur þeirra. Starfið innan Guðspekisamtakanna byggir á lögmálum guðspekinnar og fylgir hefðum hennar. Eitt megin hlutverk Guðspekisamtakanna er að útbreiða hvernig á að hagnýta guðspekina. Í þeim tilgangi hefur Ananda Tara Shan stofnandi Guðspekisamtakanna miðlað nýrri vitneskju, Maitreya guðspeki, frá Herranum Maitreya, sem er stjórnandi andlegrar Helgistjórnar jarðarinnar og þekktur sem Bodhisattva og Kristur jarðar.

Ananda Tara Shan, (1946 - 2002) stofnandi Guðspekisamtakanna og lærisveinn Maitreya, miðlaði kennslu samtakanna, Maitreya guðspeki, sem leggur áherslu á hagnýtingu guðspekinnar. Hún þróaði í samvinnu við Meistara Helgistjórnarinnar, Udhana heilunar- og Shan hugleiðslukerfið sem samtökin kenna og nota í starfsemi sinni, jarðarheilunarþjónustur o.fl. Nánari upplýsingar eru að finna á heimasíðu höfuðstöðva samtakanna The Theosophical Fellowship.

Upphaf starfsemi Guðspekisamtakanna í Reykjavík má rekja aftur til 7. maí 1991 þegar Ljósheimar, áður Íslenska heilunarfélagið sem hafði það hlutverk að reka Norræna heilunarskólann hér á landi frá 12. janúar 1985, varð hluti af alþjóðasamtökum þeim sem Ananda Tara Shan stofnaði og eru í dag þekkt sem Guðspekisamtökin (The Theosophical Fellowship). Síðar eða í janúar 2002 fékk starfsemin formlega heimild til að starfa sem miðstöð (Lodge) innan Guðspekisamtakanna og varð þar með fyrsta miðstöðin utan Ástralíu til að öðlast slíka heimild. Nafn miðstöðvarinnar er Nýja Avalon. Ljósheima nafnið er þó enn notað yfir húsnæði Nýju Avalon miðstöðvarinnar sem er við Hverfisgötu 105 í Reykjavík.

Í Nýju Avalon miðstöðinni er einnig rekin Hjartaflæði heilunarmiðstöð sem heyrir undir Heart Flow Worldwide. Hjartaflæði er skilgreint svona:

Orka sem við köllum Hjartaflæði streymir niður á jarðneskt/etersvið jarðar og inn í hjarta mannkynsins. Hjartaflæði er kærleikur og ljós Hjarta Maitreya í gegnum hina heilögu Móður en hún er hliðið að efnis/etersviðinu. Hjartaflæði er virkni guðdómlegs kærleika og guðdómlegur kærleikur er æðsta orka allrar guðdómlegrar orku.

Í Hjartaflæði leitumst við við að leiða saman góðviljað fólk sem getur unnið saman við að færa kærleika og heilun til Móður jarðar.

Skrifstofa og bóksala

Í Nýju Avalon miðstöðinni er rekin bóksala þar sem hægt er að fá guðspekibækur m.a. eftir Anöndu Töru Shan, Blavatsky, Annie Besant, Leadbeater, A. A. Bailey o.fl., Einnig er seldar bækur eftir meðlimi samtakanna Ann Brenton, Tarajyoti Govinda, Eldey Huld Jónsdóttur og fleiri, auk geisladiska. Talsvert er til af efni frá höfuðstöðvum samtakanna í Ástralíu , bæklingar eftir stofanda Guðspekisamtakanna Anöndu Töru Shan, tónlist og hugleiðslur á geisladiskum með Anöndu og plánetuhugleiðslur úr bókinni 17 þrep til fullkomnunar sem Eldey Huld leiðir. Kennsluefni frá stofnanda samtakanna Anöndu Töru Shan er einnig að finna á heimasíðunni maitreyatheosophy.org og geta áhugasamir lesið það þar eða prentað efnið út án endurgjalds.

Bóksalan er opin eftir dagskrárliði og eftir samkomulagi. Sendið póst á info@nyjaavalon.is.

Eldey Huld gefur nánri upplýsingar um starfsemi Nýju Avalon miðstöðvarinnar í síma 898 4373.