Um Kirkjuna

Kirkja hins upprisna lífs byggir á lögmálum guðspekinnar, guðdómlegri visku aldanna. 
Kirkja hins upprisna lífs er tileinkuð heilun jarðarinnar og mannkynsins í ljósi Anda Upprisunnar og Herrans Jesú.

Kirkja hins upprisna lífs var stofnuð 10. mars árið 2009 með sérstakri athöfn í Nýju Avalon miðstöðinni. Þann 4. júní sama ár var kirkjan skráð í fyrirtækjaskrá með kennitöluna 440609-1120 og 8. október 2009 fékk kirkjan opinbera skráningu sem trúfélag. Hún starfar því eftir lögum nr. 108/1999 um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Hver sem er getur skráð sig í Kirkju hins upprisna lífs hjá Þjóðskrá. 

Kirkjuráðið skipa þjónar í Nýju Avalon miðstöðinni. Forstöðumaður kirkjunnar er Eldey Huld Jónsdóttir. Netfang hennar er eldey@avalon.is 

Kirkja hins upprisna lífs er sjálfstæð stofnun. Móðurkirkja hennar er Church of the Resurrected Life í Daylesford, Ástralíu. Stofnandi Church of the Resurrected Life er Ananda Tara Shan sem einnig er stofnandi Guðspekisamtakanna.

Starfsemi kirkjunnar felst í heilunarþjónustum sem eru að jafnaði ein í mánuði nema um jól og páska þá eru tvær þjónustur. Sérhver þjónusta hefur sitt eigið þema. Áhersla er lögð á heilun jarðarinnar og mannkynsins í gegnum hugleiðslu og ákallanir á mismunandi orku og eiginleika. Þjónustur kirkjunnar fara fram í Nýju Avalon miðstöðinni. Þær eru opnar öllum 16 ára og eldri. 


Einkunnarorð kirkju hins upprisna lífs eru:

Þegar þrír safnast saman í mínu nafni, þá er ég þar.

Þegar einhver biður einlæglega til Guðs, þá er ég þar.

Þegar einhver fórnar einhverju af sjálfum sér/sjálfri sér

fyrir góðan málstað, þá er ég með honum/henni.

Þegar einhver verndar bróður sinn eða systur á jörðu

með tali sínu, með gjörðum sínum, þá er hann/hún með mér.

Þannig er ég ávallt til staðar fyrir alla sem óska þess að ég sé til.

Jesús

(úr Lifandi Orði Helgistjórnarinnar eftir Ananda Tara Shan)


Um sanna kirkju

Um sanna kirkju segir Ananda Tara Shan: 

Sönn kirkja er miðpunktur þar sem Andi og efni geta mæst, staður þar sem hinir fjórir miklu kraftstraumar frá Helgistjórninni, englaríkinu, sólinni og frá miðju jarðar streyma inn í og í gegnum. Kirkja er ímynd þess sem við manneskjur verðum þegar líkamar okkar eru orðnir Musteri sálarinnar.

Þegar við göngum inn í kirkju þá erum við blessuð af þessum kröftum sem gefa heilun, upplyftingu og leiðsögn svo við komumst nær sál okkar, Kristssjálfinu og lærum meira um það hvernig við að lokum verðum þetta Kristssjálf. Þegar við bjóðum okkur fram til þjónustu í kirkju, sérstaklega þegar við gerum það með hópi fólks með sama tilgang, þá er viðleitni okkar sannarlega margfölduð og blessanirnar sem færðar eru þeim sem eru í neyð margfaldast.

Guðspekingurinn Geoffrey Hodson lýsir kirkju sem segulmagnaðri miðstöð sem er stofnuð á ákveðnum stað á yfirborði jarðar. Á þessum stað hafa verið skapaðar sérstakar aðstæður sem leyfa frjálsan aðgang að krafti, lífi og vitund frá andlega sviðinu niður á efnissviðið og til baka frá efnissviðinu til andlega sviðsins.